: » 

Skýrsla stjórnar 2014–2015

Skýrsla  stjórnar Samtaka móðurmálskennara starfsárið 2014–2015 flutt á aðalfundi Samtaka móðurmálskennara í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 28. maí 2015.
 
Samtök móðurmálskennara  voru stofnuð 3. júní 1978 .  Samtökin eru fyrst og fremst fagfélag íslenskukennara á öllum skólastigum en jafnframt opin öllum þeim sem láta sig varða kennslu íslensku sem móðurmáls. Í samtökunum eru  350  aðilar, kennarar og stofnanir.  Síðasti aðalfundur SM var haldinn á Eiðisskeri 16. maí 2014.
 
STJÓRN SAMTAKA MÓÐURMÁLSKENNARA
Verkaskipting stjórnar starfsárið 2014 – 2015.
 
Formaður: Lilja Margrét Möller,  grunnskólakennari
Gjaldkeri: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir,  grunnskólakennari
Ritari: Rúnar Helgi Vignisson, háskólakennari
Meðstj.: Úlfar Snær Arnarson, framhalddskólakennari
Meðstj.: Steinunn Egilsdóttir,  framhaldsskólakennari
 
Varam.: Steinunn Njálsdóttir, grunnskólakennari
Varam.: Rósa Marta Guðnadóttir, framhaldsskólakennari
Varam.: Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, háskólakennari
 
Félagslegir skoðunarmenn reikninga:
Aðalm.: Rósa Marta Guðnadóttir, framhaldsskólakennari
Varam.: Steinunn Njálsdóttir, grunnskólakennari
 
STJÓRNARFUNDIR
Stjórnarfundir eru haldnir mánaðarlega í Kennarahúsinu eða í skólum sem stjórnarmenn starfa.  Alls voru stjórnarfundir 8 á starfsárinu.
 
VORFUNDUR
Árlegur vorfundur var haldinn á Eiðisskeri á Seltjarnarnesi 16. maí 2015.
Sigríður Gunnarsdóttir og Kristín Arnþórsdóttir frá Bókasafni Seltjarnarness kynntu hlutverk bókasafns að efla læsi. Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólakennari  kynnti doktorsverkefni sitt, Fyrstu kynni af tungumálinu og fjölbreytni þess. Rúnar Helgi Vignisson kynnti ritlistaverkefnið Laxnessfjöðrina sem Samtök móðurmálskennara tóku við 2013.  Steinunn Mar sagði frá Mýri, barnabókahátið sem var haldinn í október 2013.  Steinunn Egilsdóttir sagði frá norrænu samstarfi í Nordspråk. Þórarinn Eldjárn, rithöfundur las upp úr ljóðabók sinn Tautað og raulað.  Samtök móðurmálskennara veittu skemmtiþættinum Orðbragð sem sýndur hefur verið á RUV viðurkenningu fyrir íslenskt mál.  Að því tilefni fjallaði Brynja Þorgeirsdóttir um tilurð þáttana.
 
SKAMMDEGISFUNDUR
Árlegur skammdegisfundur var haldinn í lok nóvember í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar að Laufásvegi. Á dagskránni var upplestur, umræður og undursamleg samvera.

Að þessu sinni las Hjörtur Marteinsson úr ljóðabók sinni, Alzheimer tilbrigðin,

Steinar Bragi kynnti skáldsöguna Kötu,  Bryndís Björgvinsdóttir las úr barna-og unglingabók sinni, Hafnarfjarðarbrandaranum.  Að lokum las Vera Illugadóttir upp úr bók ömmu sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, Svarthvítum dögum.
 
LAXNESSFJÖÐRIN
Laxnessfjöðrin barst að þessu sinni til Efra Breiðholts í Reykjavík.
Nemendur í  9. bekk unnu að ritlistarverkefnum ásamt íslenskukennurum sínum.
Í tengslum við verkefnið var boðið upp á  námskeið fyrir íslenskukennara í viðkomandi skóla þar sem þeim voru kynntar ýmsar aðferðir við kennslu í ritlist. Að þessu sinni sáu Davíð Stefánsson og Halla Margrét Jóhannesdóttir um  kennslu í ritlistanámskeiðinu á vormánuðum 2015.  Uppskeruhátið var haldin í Fellaskóla í  maí 2015. Stúlknakór 4. bekkjar flutti Maístjörnuna og Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari, afhenti Laxnessfjöðrina. Viðurkennningar hlutu;  Judita Polepsaityte úr Fellaskóla fyrir ljóð sitt og hópur úr Hólabrekkuskóla fyrir ljóð sín. Umsjón með verkefninu hafði Rúnar Helgi Vignisson.
 
SKÍMA
Skíma, málgagn Samtaka móðurmálskennara kom út í  desember.  Þetta er 37. tölublað sem fylgt hefur SM frá stofnun þess.  Skíma kemur á prenti en  jafnframt er hún aðgengileg á heimsíðu SM.  Í blaðinu er úrval greina sem tengjast íslensku máli.  Mennta-og menningarmálaráðuneytið styrkir útgáfu Skímu. Ritstjórar Skímu eru Bjarki M. Karlsson og Guðný Ester Aðalsteindóttir.  Ritstjórar sjá einnig um heimasíðu SM.  modumal.is
 
FÉSBÓKARHÓPUR
Þar eru nú um 435 kennarar og áhugafólk um móðurmálsskennslu. Aðeins brot af þessum hópi eru félagar í SM. 
 
HAUSTNÁMSKEIÐ - RÖDDIN
Haustnámskeið Samtaka móðurmálskennara fór fram á Hótel Glym 26.- 27. september 2014.  Einar Kárason skáld flutti erindi um sagnahefð á Íslandi, Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðingur ræddi forna tónlist og hljóðfæri, Ísmús vefurinn var  kynntur og  Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur talaði um raddbeitingu og raddvandamál.  Ævar Kjartansson útvarpsmaður fjallaði um undirbúning frásagnar.  Unnið var í vinnustofum og farið í vettvangsferð á Egilssögulóðir.  Rannís og KÍ styrktu námskeiðið. Umsjón með námskeiðinu hafði Úlfar Snær Arnarson.            
 
NORRÆN SAMVINNA
Samtök móðurmálskennara á Norðurlöndum mynda Nordspråk sem er samstarfsvettvangur þeirra sem kenna norræn mál sem móðurmál eða annað mál.  Nordspråk fundir voru haldnir í Kaupmannahöfn í desember 2014 í mars 2015.  Umræða var um Nordspråk í nútíð og framtíð – nýjar áherslur í námskrá og aukin áhersla á samvinnu norrænna tungumála – skilning á mæltu máli. Á fundunum voru einnig skipulögð námskeið og ráðstefnur.  Norrænt haustsnámskeið um skapandi kennslu var haldið í Finnlandi í september og framundan er norrænt sumarnámskeið sem að þessu sinni verður haldið á Íslandi.  Fulltrúar frá Íslandi voru Lilja Margrét Möller, Steinunn Egilsdóttir og Bjarki Karlsson fyrir ritstjóra fagtímarita.  Fundir er styrktir af Nordspråk, Mennta-og menningarmálaráðuneyti og KÍ.
 
SMÁSAGNAKEPPNI Í GRUNNSKÓLUM
Samtökin eiga fulltrúa í dómnefnd í Smásagnasamkeppni í 8.- 10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar.  Lilja Margrét Möller er fulltrúi SM.  Uppskeruhátíð var haldin í Hafnarfirði í mars 2014.
 
ÍSLENSK MÁLNEFND - MÁLRÆKTARSJÓÐUR
Samtökin eiga fulltrúa í Íslenskri málnefnd.  Fulltrúi SM á starfsárinu var Steinunn Mar.
 
BARNABÓKAHÁTÍÐ
Samtök móðurmálskennara koma að Alþjóðlegu barna- og unglingabókmenntahátíðinni Mýri. Hátíðin byggir á fjölbreyttri dagskrá með þátttöku höfunda og fræðimanna, innlendra sem erlendra. Páfugl úti í mýri  fór fram 9.–12. október 2014 og á henni komu fram á fjórða tug íslenskra og erlendra rithöfunda.  Fulltrúi SM var Steinunn Mar.
 
NÁMSEFNI
Vinnuhópur innan SM leggur mat á umsóknir fyrir Þróunarsjóð námsgagna sem er á vegum Rannís.  Í hópnum voru stjórn SM ásamt fulltrúa frá leikskólastigi.

Einnig tók SM þátt í starfshópi á vegum Námsgagnastofnunnar um undirbúning að gerð nýs námsefnis í íslensku fyrir miðstig.  Fulltrúi SM í starfshópnum var Lilja Margrét Möller.
 
LESUM LAXNESS – GLJÚFASTEINN
SM kemur að verkefnastjórn  í tilefni af  að sextíu ár eru liðin frá því Halldór Laxness tók við Nóbelsverðlaunum.  Tengja á viðburði inn á öll skólastig, frá leikskóla til framhaldsskóla.
Fulltrúi SM var Lilja Margrét Möller.
 
AÐ LOKUM
Starfsemi SM hefur verið í tiltölulega föstum skorðum og leitað hefur verið allra leiða til að tryggja fjárhag fyrir verkefnin.  Meðal verkefna þessa starfsárs var að bæta upplýsingaflæði til félagsmanna með nýrri heimasíðu.   Annað brýnt verkefni sem stjórnin hefur rætt um er að  opna umræðu fyrir mikilvægi móðurmálskennslu í skólum.

Lilja Margrét Möller
Samtök móðurmálskennara    Kennarahúsinu, Laufásvegi 81    modurmal[hjá]modurmal.is