: » 

Lög samtakanna

1. gr.
Félagið heitir Samtök móðurmálskennara.

2. gr.
Markmið þess er að vinna að vernd og viðgangi íslenskrar tungu á öllum sviðum.

3. gr.
Markmiði þessu hyggst félagið ná; – með því að efla samstarf íslenskra móðurmálskennara, – með því að fylgjast með og beita sér fyrir nýjungum í móðurmálskennslu, – með því að auka þátt kennara í að móta kennsluna, inntak hennar og aðferðir, – með því að láta sig skipta menntun móðurmálskennara og hafa samskipti við þær stofnanir sem þá menntun annast, – með því að efla tengsl við þá sem semja námskrár og námsefni á vegum menntamálaráðuneytis, – með samskiptum við þá aðila utan skólans sem öðrum fremur hafa áhrif á íslenskt mál, – með því að leita tengsla við móðurmálskennara erlendis, – með því að efna til ráðstefnuhalds, námskeiða og útgáfustarfsemi.

4. gr.
Félagssvæðið er landið allt og nær til allra skólastiga. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

5. gr.
Allir starfandi móðurmálskennarar geta orðið félagsmenn eins þótt þeir kenni aðrar námsgreinar jafnframt. Einnig skal heimilt að taka inn í félagið aðra þá sem um það sækja.

6. gr.
Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Hún er skipuð 5 mönnum og 3 til vara. Skulu 2 aðalmenn og 1 varamaður vera af grunnskólastigi, 2 aðalmenn og 1 varamaður af framhaldsskólastigi og 1 aðalmaður og 1 varamaður af háskólastigi. Aðalstjórn sjálf skiptir með sér verkum. Sé þess óskað skulu kosningar gerðar leynilegar.

7. gr.
Stjórnin skal setja nefndir til ýmissa starfa og gangast fyrir stofnun deilda og/eða starfshópa eftir þörfum.

8. gr.
Aðalfund skal halda að vori ár hvert. Á dagskrá skal vera:

a. Skýrsla stjórnar.
b. Reikningar.
c. Lagabreytingar.
d. Kosning stjórnar og endurskoðenda.
e. Önnur mál.Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála.

9. gr.
Almenna félagsfundi skal stjórnin halda eftir þörfum. Jafnframt er henni skylt að boða til fundar ef tíundi hluti félagsmanna krefst þess.

10. gr.
Tekjur félagsins eru árgjöld félagsmanna sem eru ákveðin á aðalfundi, styrkir og frjáls framlög.

11. gr.
Reikningsárið er almanaksárið og kýs aðalfundur tvo endurskoðendur til eins árs í senn, einn félagslegan skoðunarmann og annan til vara.

12. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi enda hafi breytingartillögur borist 3 vikum fyrir aðalfund og verið kynntar í fundarboði.
Samtök móðurmálskennara    Kennarahúsinu, Laufásvegi 81    modurmal[hjá]modurmal.is